Fótbolti

Spán­verjar reka heims­meistara­þjálfarann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jorge Vilda smellir kossi á heimsmeistarabikarinn.
Jorge Vilda smellir kossi á heimsmeistarabikarinn. getty/Marc Atkins

Eins og við var búist hefur spænska knattspyrnusambandið sagt Jorge Vilda upp störfum sem þjálfara kvennalandsliðsins, þrátt fyrir að hafa gert það að heimsmeisturum í síðasta mánuði.

Gustað hefur um Vilda og ekki síst Luis Rubiales, forseta spænska knattspyrnusambandsins, eftir að Spánverjar urðu heimsmeistarar í kvennaflokki í fyrsta sinn. 

Sem kunnugt er kleip Rubiales í klofið á sér eftir úrslitaleikinn og kyssti svo Jennifer Hermoso á munninn. Vilda vildi ekki vera minni maður og kleip í brjóst samstarfskonu sinnar þegar þau fögnuðu sigurmarkinu í úrslitaleik HM gegn Englandi.

Vilda var fyrir afar umdeildur en frægt er þegar fimmtán leikmenn spænska landsliðsins skrifuðu undir bréf þar sem þjálfunaraðferðir hans voru harðlega gagnrýndar og að hann hafi haft slæm áhrif á andlega og líkamlega heilsu leikmanna.

Í síðustu viku hætti allt þjálfarateymi spænska landsliðsins í mótmælaskyni vegna framferðis Rubiales, alls ellefu manns. 

Vilda sat hins vegar sem fastast enda hefur hann alltaf notið stuðnings Rubiales. Hann bauð honum meðal annars sannkallaðan ofursamning í varnarræðu sinni á fundi spænska knattspyrnusambandsins.

Eftir að FIFA dæmdi Rubiales í níutíu daga bann frá fótbolta átti Vilda hins vegar fáa hauka í horni og hann hefur nú verið látinn taka pokann sinn.

Vilda tók við spænska landsliðinu 2015 eftir að hafa þjálfað yngri landslið Spánar um nokkurra ára skeið. Hann stýrði Spánverjum á HM 2019 og 2023 og EM 2017 og 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×