Ísland og Bosnía og Hersegóvína mætast á Laugardalsvelli á mánudaginn kemur. Leikurinn er liður í undankeppni Evrópumótsins á næsta ári en Ísland þarf nauðsynlega á sigri að halda í leiknum eftir misjafnt gengi í riðlinum til þessa.
Liðin mættust í Bosníu í mars þar sem heimamenn fóru með 3-0 sigur af hólmi. Síðan þá er búið að skipta um landsliðsþjálfara hjá íslenska liðinu og Åge Hareide tekinn við af Arnari Þór Viðarssyni.
Bosnía og Hersegóvína verður hins vegar án lykilmanns síns í leiknum á Laugardalsvelli. Anel Ahmedhodzic, sem leikur sem miðvörður með Sheffield United í ensku úrvalsdeildinni, hefur verið settur í bann af eigin knattspyrnusambandi.
Ahmedhodzic boðaði forföll þegar hann var valinn í landsliðshópinn fyrir leiki Bosníu og Hersegóvinu fyrir leiki liðsins gegn Íslandi og Lichtenstein. Hann lék níutíu mínútur með Sheffield United gegn Everton á laugardag og en boðaði forföll í kjölfarið vegna meiðsla.
Trúa ekki meiðslasögunni
Knattspyrnusambandið fékk skýrslu vegna meiðslanna frá Sheffield United þar sem fram kom að meiðslin væru ekki alvarleg. Sambandið tók í kjölfarið ákvörðun um að setja Ahmedhodzic í bann.
„Enginn leikmaður getur skorast undan þeirri ábyrgð að mæta þegar landsliðið hittist, nema við sérstakar aðstæður eða vegna meiðsla. Þar sem þessi meiðsli eru ekki það alvarleg að þau hindra hann í að taka þátt með landsliðinu höfum við ákveðið að setja hann í bann og hefur rannsókn á málinu verið sett í gang,“ skrifar knattspyrnusamband Bosníu og Hersegóvínu.
Í yfirlýsingu sambandsins kemur einnig fram að reynt hafi verið að ná sambandi við Ahmedhodzic án árangurs. Ahmedhodzic gekk til liðs við Sheffield United frá sænska liðinu Malmö FF árið 2022 en hann er uppalinn hjá sænska liðinu.
Hann lék allan fyrri leik Íslands og Bosníu og Hersegóvinu í mars og hefur verið lykilmaður í vörn liðsins síðustu mánuðina.