Nýtt kerfi sem heldur utan um skiptingu fjármagns frá UEFA var staðfest í dag en það mun taka gildi frá byrjun tímabilsins 2024-25, um leið og nýtt fyrirkomulag í Meistaradeild Evrópu tekur gildi.
Nú eru 4% af innkomu UEFA frá Meistara-, Evrópu- og Sambandsdeildinni tekin frá til félaga sem ekki taka þátt í Evrópukeppnum en hlutfallið hækkar í 7% samkvæmt nýju kerfi.
Í yfirlýsingu frá UEFA og ECA kom fram að markmiðið sé að aðstoða lið á öllum stigum knattspyrnunnar.
„Hlutfall fjármagns sem tekið verður frá fyrir þau lið sem komast ekki í riðlakeppni í Evrópu verður aukið í 10% fyrir utan þau 3% sem fara til félaga sem falla úr keppni eftir forkeppnir. Hlutfallið til þeirra sem taka ekki þátt í Evrópukeppnum verður aukið í 7% og tryggir það fjármagn upp á 440 milljónir evra á hverju tímabili.“
UEFA and the European Club Association (ECA) have confirmed a new revenue distribution model that will increase solidarity payments to teams not participating in UEFA s club competitions.
— The Athletic | Football (@TheAthleticFC) September 6, 2023
More from @mjshrimper https://t.co/Bx6P35hAA7
Hækkað fjármagn til liða sem ekki taka þátt í Evrópukeppni mun hjálpa minni liðum í Evrópu en peningurinn er einnig hugsaður sem nokkurs konar bætur fyrir að setja ekki leiki á í miðri viku þá daga sem leikir í Evrópukeppnum fara fram.
Þá segir einnig í yfirlýsingunni að lið sem taka þátt í Evrópukeppni fái einnig stæri sneið af kökunni en áður. Hlutur þátttökuliða eykst úr 25% í 27,5% og það hlutur þeirra liða sem ná bestum árangri eykst einnig úr 30% hlutfalli og í 37,5%. Í staðinn minnkar vægi fjármagns í svokölluðum markaðspotti og vegna stöðu þjóðar á styrkleikalista UEFA.