Enski boltinn

Antony í við­tali í brasilísku sjón­­varpi: Of­beldi gagn­vart konum er 100 prósent rangt

Smári Jökull Jónsson skrifar
Antony neitar öllum þeim áskökunum sem komið hafa fram gagnvart honum.
Antony neitar öllum þeim áskökunum sem komið hafa fram gagnvart honum. Vísir/Getty

Brasilíski knattspyrnumaðurinn kom fram í brasilískum sjónvarpsþætti í gær og neitaði ásökunum um ofbeldi sem birst hafa gagnvart honum. Manchester United segjast taka ásökununum alvarlega.

Eftir að fyrrum unnusta Antony, Gabriela Cavalin, sakaði hann um heimilisofbeldi í vikunni var vængmaðurinn tekinn út úr brasilíska landsliðshópnum. Í kjölfarið stigu fleiri konur fram og sökuðu Antony um ofbeldi. Rayssa de Freitas sagðist hafa þurft að leita á sjúkrahús eftir árás Antony og annarrar konu í maí 2022.

Antony var í viðtali á brasilísku sjónvarpsstöðinni SBT í gær þar sem hann neitaði áskönunum og sagði að sannleikurinn myndi koma í ljós. Hann sagðist aldrei hafa lagt hendur á konu.

„Aldrei. Ég hef aldrei gert það og mun aldrei gera það. Ofbeldi gagnvart konum er algjörlega rangt, 100 prósent rangt,“ sagði Antony tárvotur í viðtalinu.

Samkvæmt fréttum fjölmiðla tilkynnti De Freitas atvikið til lögreglunnar í Sao Paulo á sínum tíma. Þá hefur þriðja konan, Ingrid Lana, greint frá því að Antony hafi þrýst á hana að stunda með honum kynlíf þegar hún var í viðskiptaferð á Englandi á síðasta ári.

Hún sagði Antony hafa boðið sér heim til sín og ýtt henni upp að vegg sem varð til þess að hún fékk högg á höfuðið.

„Hann reyndi að stunda kynlíf með mér en ég vildi það ekki. Tilgangur minn með heimsókninni var viðskipti en þegar ég kom þangað sá ég að hann hafði aðrar tilætlanir.“

Hvað varðar ásakanir Lana sagði Antony:

„Nei, ég er 100% viss um að ég hafi aldrei snert neina konu. 100% viss. Ég mun útvega sönnunargögn og þá mun fólk skilja. Það mun sjá sannleikann.“

Manchester United gaf út yfirlýsingu um málið í vikunni þar sem það sagðist taka ásökunum á hendur Antony alvarlega. Félagið hefur ekki tjáð sig um málið að öðru leyti. Lögreglan í Manchester er með ásakanir fyrrum unnustu hans til rannsóknar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×