Enski boltinn

Settur til hliðar vegna ásakana um ofbeldi

Smári Jökull Jónsson skrifar
Antony í leik Manchester United og Arsenal á dögunum.
Antony í leik Manchester United og Arsenal á dögunum. Vísir/Getty

Antony er kominn í ótímabundið leyfi frá störfum sínum hjá Manchester United. Félagið og Antony birtu nú áðan yfirlýsingar um málið á samfélagsmiðlum.

Ásakanirnar gagnvart Antony hafa verið mikið í fréttum síðustu daga en alls hafa þrjár konur sakað hann um að hafa beitt sig ofbeldi á síðustu misserum.

Antony kom fram í brasilísku sjónvarpi í fyrrakvöld þar sem hann neitaði öllum áskökunum sem fram hafa komið og sagðist aldrei hafa lagt hendur á konu.

Nú hefur Manchester United birt yfirlýsingu á heimasíðu sinni þar sem greint er frá því að samkomulag hafi verið gert við Antony að hann fresti heimför sinni um óákveðinn tíma. Leikmenn sem eru ekki í landsliðsverkefnum eiga að snúa aftur til æfinga á morgun en svo verður ekki með Brasilíumanninn.

„Félagið fordæmir allt ofbeldi. Við skiljum mikilvægi þess að vernda alla þá sem eru innblandaðir í málinu og sömuleiðis hvaða áhrif ásakanirnar hafa á þolendur ofbeldis.“

Sjálfur birtir Antony yfirlýsingu á Instagram þar sem hann segir að ákvörðunin um leyfi sé sameiginleg hjá honum og félaginu.

„Ákvörðunin er tekin til að koma í veg fyrir að liðsfélagar mínir verði fyrir truflun og að félagið lendi í óþarfa deilum. Mig langar að ítreka sakleysi mitt gagnvart því sem ég hef verið sakaður um. Ég mun vinna að fullu með lögreglunni til að hjálpa þeim að komast að sannleikanum.“

„Ég hlakka til að snúa aftur á völlinn eins fljótt og hægt er,“ segir í yfirlýsingu Brasilíumannsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×