Enski boltinn

Spila allan leikinn aftur þó að­eins fjórar mínútur hafi verið eftir

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr leik hjá Buxton.
Úr leik hjá Buxton. Twitter@Buxton_FC

Hætta þurfti leik á 96. mínútu þegar Scunthorpe United og Buxton mættust nýverið í Norðurhluta National-deildarinnar, hluti af F-deildinni á Englandi, vegna mikillar rigningar. Buxton var þá 2-1 yfir en nú hefur verið ákveðið að spila þurfi leikinn að nýju, frá upphafi til enda.

Leikurinn fór upphaflega fram á heitasta degi ársins á Englandi en hitinn fór upp í tæplega 33 gráður. Það var þó ekki hitinn sem orsakaði langan uppbótartíma en alls var tíu mínútum bætt við eftir að stöðva þurfti leik þar sem aðskotahlutum var hent í markvörð Buxton.

Það virtist ekki koma að sök en gestirnir í Buxton leiddu 2-1 þegar sex mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Það var þá sem slíkt úrhelli hófst að fresta þurfti leiknum. Nú hefur deildin ákveðið að spila þurfi leikinn að nýju, allan leikinn það er að segja.

„Málið var skoðað gaumgæfilega, niðurstaðan byggir á regluverki deildarinnar sem og öðrum svipuðum málum í fortíðinni. Nýr leikdagur verður ákveðinn og liðin látin vita þegar þar að kemur,“ segir í yfirlýsingu frá deildinni.

Craig Elliott, þjálfari Buxton, er vægast sagt ósáttur með forráðamenn deildarinnar. Hann bjóst við því að almenn skynsemi myndi hafa betur en svo virðist ekki hafa verið. Nú þarf Buxton-liðið og stuðningsfólk þess að ferðast þvert yfir England í annað sinn til að spila leik sem það var svo gott sem búið að vinna.

Til að strá salti í sárin þá stendur rauða spjaldið sem Connor Brown fékk í leiknum og hann missir því af leiknum gegn Macclesfield í FA-bikarnum á laugardaginn kemur.

Scunthorpe United er í 2. sæti deildarinnar á meðan Buxton er í 13. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×