Fótbolti

„Erum með leik­­menn sem munu fá fólk til að rísa úr sætum sínum“

Aron Guðmundsson skrifar
Davíð Snorri Jónasson, þjálfari U-21 árs landsliðs Íslands.
Davíð Snorri Jónasson, þjálfari U-21 árs landsliðs Íslands. Vísir/Hulda Margrét

Davíð Snorri Jónas­son, þjálfari u21 árs lands­liðs Ís­lands í fót­bolta er bjart­sýnn fyrir komandi verk­efni liðsins í undan­keppni EM 2025 sem hefst í dag með heima­leik gegn Tékk­landi. Hann vill að leik­menn sýni þjóðinni hvað það þýði fyrir þá að spila fyrir Ís­lands hönd.

Ís­land er í riðli með Tékk­landi, Dan­mörku, Wa­les og Litháen í undankeppninni.

„Þetta er spennandi verk­efni, spennandi riðill og spennandi lið sem við erum með í höndunum. Ég hlakka bara til að byrja þetta,“ segir Davíð Snorri.

„Mögu­leikar okkar eru jafnt á við alla hina. Þetta snýst um að koma út sem sigur­vegari úr hverjum lands­leikja­glugga og sýna fólki hvað það þýðir fyrir okkur að spila fyrir Ís­land.“

Hvernig muntu leggja leikinn upp gegn Tékk­landi?

„Fyrst og fremst eru á­kveðin at­riði hvers leiks sem við getum verið bestir í. Það eru ein­föld at­riði leiksins á borð við seinni bolta, hjálpar­vörn, einn á móti einum og föst leik­at­riði. Við ætlum að vera með þetta allt á hreinu í leiknum gegn Tékk­landi og þegar að það er komið þá erum við með leik­menn sem munu fá fólk til að rísa úr sætum sínum.“

Leikur Ís­lands og Tékk­lands í undan­keppni EM 2025 verður í beinni út­sendingu á Stöð 2 Sport. Við hefjum beina út­sendingu frá Víkings­velli klukkan 16:20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×