Fótbolti

Sjáðu tvennu Guð­rúnar í endur­komu Rosengård | Bayern mis­­steig sig

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Guðrún skoraði tvennu í kvöld.
Guðrún skoraði tvennu í kvöld. Vísir/Getty

Guðrún Arnardóttir skoraði tvö mörk þegar Rosengård vann 3-1 sigur á IF Brommapojkarna í sænsku úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu. Glódís Perla Viggósdóttir og stöllur í Bayern München misstigu sig í fyrstu umferð þýsku úrvalsdeildarinnar.

Rosengård hefur átt erfitt uppdráttar á tímabilinu og liðið er langt frá toppliðunum. Það kom þó töluvert á óvart þegar gestirnir komust yfir eftir tæpan hálftíma í dag. Það var eina mark fyrri hálfleiks en þegar 18 mínútur voru til leiksloka þá jafnaði Guðrún metin eftir góðan skalla á fjærstöng eftir hornspyrnu.

Aðeins fimm mínútum síðar kom Sofie Bredgaard heimakonum yfir og staðan orðin 2-1 Rosengård í vil. Skömmu síðar skoraði Guðrún aftur með góðum skalla á fjær, lokatölur 3-1. Rosengård er sem stendur með 36 stig að loknum 20 leikjum, tíu stigum á eftir toppliði Häcken sem á leik til góða.

Þýska úrvalsdeild kvenna hófst með leik Freiburg og Þýskalandsmeistara Bayern. Glódís Perla, fyrirliði meistaranna, var að venju í hjarta varnarinnar. Heimakonur í Freiburg komust yfir strax á 7. mínútu en Lea Schüller jafnaði metin fyrir Bayern tæpum stundarfjórðung síðar og staðan 1-1 í hálfleik.

Ekkert var skorað lengi vel í síðari hálfleik en Katharina Naschenweng kom Bayern yfir á fyrstu mínútu uppbótartíma. Það dugði hins vegar ekki þar sem Freiburg jafnaði metin þegar sjö mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma, lokatölur 2-2.

Úrslitin vonbrigði fyrir meistaralið Bayern sem verða eflaust í harðri baráttu við Wolfsburg enn og aftur á komandi leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×