Lífið

Tilkynntu kyn barnsins með þyrlu

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Birgitta Líf og Enok eyddu greinilega miklu púðri í kynjaveisluna í kvöld.
Birgitta Líf og Enok eyddu greinilega miklu púðri í kynjaveisluna í kvöld. Instagram

Birgitta Líf Björnsdóttir og Enok Jónsson héldu kynjaveislu í kvöld þar sem þau greindu frá kyni ófædds barns síns með því að láta þyrlu dreifa bláum reyk úr lofti. Ef marka má bláan litinn á parið von á dreng.

Birgitta Líf, sem er markaðsstjóri World Class, og kærasti hennar, Enok , greindu frá því 16. ágúst að þau ættu von á barni. Parið byrjaði að rugla saman reytum í ársbyrjun 2022 en þó nokkur aldursmunur er á parinu þar sem Birgitta er nýorðin þrítug og Enok er 21 árs.

Foreldrarnir leituðu á náðir gesta með nafnakassa. Þar gat fólk skrifað tillögur að nöfnum á miða og sett í kassann.Instagram

Parið hélt í kvöld svokallaða kynjaveisla að bandarískri fyrirmynd þar sem þau greindu frá kyni barnsins ófædda. 

Í slíkum veislum er opinberun kynsins aðalmálið og á netinu má sjá hvernig fólk hefur fundið stöðugt frumlegri leiðir til þess að greina frá kyninu. Í kynjatvíhyggjunni táknar bleikur að von sé á stelpu en blár að það sé strákur á leiðinni.

Í hefðbundnustu kynjaveislum skera foreldrarnir köku sem er annað hvort blá eða bleik að innan, aðrir sprengja innibombur með lituðum glitpappír en í tilfelli Birgittu og Enoks var það þyrla sem dreifði bláum reyk úr lofti.

Það var greinilega mikið lagt í veitingar og skraut í kynjaveislunni.Instagram

Verknaðurinn vakti mikla athygli nágranna parsins og hafa sumir hneykslast á því að parið hafi eytt svo miklu púðri í tilkynninguna. 

Einn netverji deildi mynd af þyrlunni á Twitter og skrifaði við hana  „Á meðan flestir rembast við að flokka, nota bílinn minna, borða minna kjöt etc. heldur Birgitta Líf gender reveal með þyrlu. Eðlilega.“

Í upphaflegu fréttinni stóð að um blátt duft væri að ræða þegar hið rétta er að um bláan reyk var að ræða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.