Fótbolti

Spænsku lands­liðs­konurnar binda enda á verk­fallið eftir lof­orð um breytingar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Spænska knattspyrnusambandið lofar landsliðskonunum bót og betrun.
Spænska knattspyrnusambandið lofar landsliðskonunum bót og betrun. Denis Doyle/Getty Images

Leikmenn spænska kvennalandsliðsins í knattspyrnu hafa samþykkt að binda enda á verkfall sitt frá landsliðinu eftir að spænska knattspyrnusambandið lofaði tafarlausum og umtalsverðum breytingum.

Niðurstaða komst loksins í málið eftir um sjö klukkustunda löng fundarhöld á hóteli utan við Valencia þar sem liðið er samankomið til æfinga fyrir komandi leiki í Þjóðadeild UEFA. Fulltrúar spænska landsliðsins, spænska knattspyrnusambandsins, spænska íþróttaráðsins og leikmannasamtaka kvenna sátu fundinn sem lauk um klukkan fimm í morgun að staðartíma.

Alls höfðu 39 leikmenn, þar af 21 af þeim 23 sem tóku þátt á HM staðfestu á dögunum að þær væru farnar í verkfall eftir að Luis Rubiales, fráfarandi forseti spænska sambandsins, kyssti Jenni Hermoso óumbeðinn á munninn eftir að Spánn sigraði England 1-0 í úrslitaleik HM fyrr í sumar. Fimmtán af þeim sem fóru í verkfall voru svo valdar í landsliðið og sex þeirra komu til móts við landsliðið í gær.

Leikmennirnir höfðu sagt að þeir myndu ekki leika fyrir spænska landsliðið fyrr en breytingar væru gerðar eftir kossinn alræmda og nú hefur spænska knattspyrnusambandið lofað bót og betrun.

„Sameiginleg nefnd verður stofnuð meðal spænska knattspyrnusambandsins, íþróttaráðsins og leikmanna til að fylgja samningnum eftir, sem verður undirritaður á fimmtudag,“ sagði Victor Francos, forseti spænska íþróttaráðsins.

„Leikmenn hafa komið sínum skoðunum um breytingar innan spænska knattspyrnusambandsins á framfæri og sambandið hefur skuldbundið sig við að gera þessar breytingar tafarlaust.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×