Aron Guðmundsson skrifar frá Tel Aviv, Ísrael.
Það hvernig frumraun liðsins á þessu sviði mun verða liggur hins vegar enn á huldu og verður ekki ljóst fyrr en seint í kvöld hvernig Blikar komast frá þessu verkefni.
Hins vegar verður það að segjast að fáir hafa trú á því að Blikar, sem hafa átt í basli undanfarið heima fyrir, muni ná að næla í úrslit hér á Bloomfield leikvanginum í Tel Aviv.
Veðbankar hafa enga trú á Breiðabliki og ef lesa má eitthvað í mætingu ísraelskra blaðamanna á blaðamannafund Breiðabliks, sem var nær engin, þá eru þeir ekki að taka okkar íslensku fulltrúa alvarlega.
Það er hins vegar á svona stundum, í svona aðstæðum, sem fulltrúar okkar þjóðar, hvort sem um ræðir lands- eða félagslið, ná að sýna sitt rétta andlit. Og það skulum við vona að raunin verði einnig í kvöld.
Fyrir æfingu Breiðabliks á Bloomfield leikvanginum í gærkvöldi mátti heyra það í liðsræðu Óskars Hrafns Þorvaldssonar, þjálfara Breiðabliks, að frá þessari stundu skyldu leikmenn leggja allt í verkefnið og sanna fyrir þeim sem standa fyrir utan og fylgjast með liðinu, að það búi enn hellingur í því.
Ef ekki fyrir aðra þá ættu leikmenn að gera það fyrir sjálfa sig, fyrir liðið. Það var ekkert hálfkák á æfingu liðsins í gær, heldur alvöru tempó og góðu dagsverki skilað.
Mín tilfinning er sú að Blikar séu mjög vel meðvitaðir um umræðuna í kringum liðið undanfarið. Blikar hafa tapað þremur leikjum í röð í aðdraganda þessa leiks í kvöld og það væri mikið styrkleikamerki hjá þeim að skila af sér sannfærandi frammistöðu í kvöld.
Verkefnið er hins vegar ærið. Maccabi Tel Aviv er sigursælasta félag Ísrael, þaulreynt á þessu sviði og hefur ekki tapað leik undir stjórn Robbie Keane sem tók við stjórnartaumunum hjá liðinu í júní.
Stress fyrir svona leiki er eðlilegt, segi ég með alla mína reynslu úr fjórðu deildinni heima, en vonandi fyrir Blika ná þeir einnig að njóta þess að spila á þessu stóra sviði, njóta þess að spila fyrir framan tugþúsundir áhorfenda á þessum þétta leikvangi.
Og hver veit, kannski verðum við vitni að einhverju sérstöku í kvöld.
Flautað verður til leiks hér í Tel Aviv klukkan sjö í kvöld að íslenskum tíma og verður leikurinn í beinni útsendingu á Vodafone sport rásinni.