Fótbolti

Segja Manchester United tilbúið að selja Sancho ódýrt í janúar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jadon Sancho gæti verið fáanlegur fyrir klink í janúar.
Jadon Sancho gæti verið fáanlegur fyrir klink í janúar. Stu Forster/Getty Images

Enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United er tilbúið að selja vængmanninn Jadon Sancho ódýrt þegar janúarglugginn opnar eftir áramót til að losna við leikmanninn frá félaginu.

Það er breski miðillinn Daily Star sem segir frá þessu, en Sancho hefur ekki átt sjö dagana sæla síðan hann gekk í raðir Manchester United frá Borussia Dortmund árið 2021. Hann var keyptur fyrir um 73 milljónir punda, sem samsvarar um 12,3 milljörðum króna, en forráðamenn félagsins er nú sagðir vera reiðubúnir að selja hann ódýrt til að koma honum burt.

Leikmaðurinn hefur ekki fengið að æfa með aðalliði Manchester United undanfarna daga eftir að honum lenti saman við þjálfara liðsins, Erik ten Hag. Áður hafði Ten Hag skilið Sancho eftir utan hóps er United mætti Arsenal í ensku úrvalsdeildinni og sakaði leikmanninn um að hafa einfaldlega ekki verið nógu góðan á æfingum til að komast í hópinn.

Í kjölfarið birti Sancho svo færslu á samfélagsmiðlum sínum þar sem hann sakaði þjálfarann um lygar og sagði að verið væri að gera sig að blóraböggli. Hann hefur nú eytt færslunni.

Sancho hefur þó fengið að vita að það eina sem hann þurfi að gera til að koma sér aftur í náðina hjá þjálfaranum sé að biðja hann afsökunar á ummælum sínum. Leikmaðurinn hefur hingað til neitað að gera slíkt og er hann því enn úti í kuldanum hjá félaginu.

Eftir að hafa heillað með Borussia Dortmund frá 2017 til 2021 gekk Sancho í raðir Manchester United. Þessi 23 ára vængmaður hefur þó ekki staðið undir væntingum hjá félaginu og hefur hann aðeins skorað níu mörk í 58 deildarleikjum fyrir félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×