Enski boltinn

Komu til Eng­lands að­eins sólar­hring áður en leikur hófst

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Darren England gerðist sekur um slæm misötk í leik Tottenham og Liverpool.
Darren England gerðist sekur um slæm misötk í leik Tottenham og Liverpool. Visionhaus/Getty Images

Stuðningsfólk Liverpool er vægast sagt ósátt eftir 2-1 tap liðsins gegn Tottenham Hotspur í ensku úrvalsdeildinni um helgina. Það bætir ekki úr sök að tveir úr dómarateyminu dæmdu leik í Sameinuðu arabísku furstadæmunum aðeins 48 tímum áður en leikur hófst í Lundúnum.

Mennirnir í VAR-herberginu svokallaða, Darren England og Dan Cook, voru staddir í Sameinuðu arabísku furstadæmunum til að dæma leik Al Ain og Sharjah í efstu deild þar í landi. Degi fyrir leik Tottenham og Liverpool flugu þeir heim á leið en flugið tók um sex klukkustundir samkvæmt frétt The Independent um málið.

Þeir Cook og England gerðu „mannleg mistök“ segir í afsökunarbeiðni dómarasambands ensku úrvalsdeildarinnar, PGMOL. Mark Luis Diaz var dæmt af í fyrri hálfleik þar sem þeir Cook og England komu upplýsingum ekki nægilega vel frá sér.

Skortur á samskiptum gerði það að verkum að Simon Hooper, dómari leiksins, taldi Diaz vera rangstæðan þegar hann var réttstæður.

„Tímabundið einbeitingarleysi“ var ástæðan fyrir mistökunum samkvæmt yfirlýsingu PGMOL. Flug frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum til Englands tekur rúma sex tíma og dómaratvíeykið kom ekki aftur til Englands fyrr en aðeins sólarhringur var í að leikurinn yrði flautaður á.

Báðir dómarar voru leystir frá störfum út þessa umferð í ensku úrvalsdeildinni hið minnsta. Þeir voru því ekki að störfum þegar Nottingham Forest og Brentford mættust í dag. Þeir verða einnig fjarverandi þegar Fulham og Chelsea mætast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×