Héraðsdómur dæmdi byggingarfélagið til að greiða rétt tæpar 36 milljónir króna til húsfélagsins. Landsréttur staðfesti síðan þá niðurstöðu og nú hefur Hæstiréttur hafnað að taka það fyrir.
Í úrskurði sínum segir Hæstiréttur að málið hafi hvorki mikla þýðingu, né að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur.
Deilan varðar frágang á þakplötu á sameiginlegri bílastæðageymslu sem fylgdi íbúðunum í Lundi 2 til 6, fjöleignarhúsi í þremur stigahúsum með 59 íbúðum.
Íbúðirnar voru afhentar á árunum 2014 til 2015, en þremur árum eftir það gerði húsfélagið athugasemdir við frágang. Það sagði til að mynda að frágangur yfirborðs bílaplans væri ekki í samræmi við samþykkta verklýsingu, teikningar og eignaskiptayfirlýsingu.
Þá sýndu loftplötur í bílakjallara merki um rakaskemmdir frá lekri þakplötu og að regnvatn og snjóbráð rynnu af gangstéttum út á bílaplanið sem ylli hálkumyndun í frosti.
Byggingarfélagið hafnaði því hins vegar að frágangi væri ábótavant. Dómkvaddir matsmenn komust að þeirri niðurstöðu að skil byggingarfélagsins á plötunni hafi ekki verið forsvaranlegur miðað við aðstæður.
Til að gera við þakplöturnar hefur húsfélaginu verið dæmdar 35,8 milljónir króna af Byggingarfélagi Gylfa og Gunnars.