Fótbolti

Chelsea skaust upp á topp deildarinnar

Hjörvar Ólafsson skrifar
Sam Kerr skallar hér boltann í netið. 
Sam Kerr skallar hér boltann í netið.  Vísir/Getty

Chelsea er komið á topp ensku ofurdeildarinnar í fótbolta kvenna en liðið tyllti sér í toppsætið með 2-0 sigri gegn West Ham á Kingsmeadow, heimavelli þeirra bláu í kvöld.

Ástralski landsliðsframherjinn Sam Kerr var í byrjunarliði Chelsea í fyrsta skipti á nýhafinni leiktíð. Kerr er að koma til baka eftir kálfameiðsli sem hún varð fyrir á heimsmeistaramótinu í sumar.  

Kerr stangaði boltann í netið eftir rúmlega hálftíma leik en eftir það herjaði West Ham hart á heimaliðið. 

Skoski landsliðssóknartengiliðurinn Erin Cuthbert innsiglaði sigur eftir glæsilegt einstaklingsframtak í uppbótartíma leiksins. 

Dagný Brynjarsdóttir spilar ekki með West Ham þessa stundina þar sem hún er barnshafandi. 

Chelsea hefur sjö stig á toppnum eftir að hafa spilað þrjá leiki en Liverpool og Leicester City koma þar á eftir með sex stig hvort lið eftir tvo leiki. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×