Enski boltinn

Jonny Evans í­hugaði það að hætta áður en Man. Utd hafði sam­band

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jonny Evans í leik með Manchester United á þessu tímabili.
Jonny Evans í leik með Manchester United á þessu tímabili. Getty/James Gill

Norður írski fótboltamaðurinn Jonny Evans hefur óvænt upplifað endurnýjun lífdaga sem leikmaður Manchester United.

Evans hélt að ferillinn hans væri jafnvel að enda eftir að hafa verið að glíma við langvinn kálfameiðsli á síðustu leiktíð. Leicester City lét hann síðan fara eftir að liðið féll úr ensku úrvalsdeildinni síðasta vor.

Fljótt skipast veður í lofti. Evans var óvænt boðinn stuttur samningur hjá Manchester United á lokadegi félagsskiptagluggans og hefur síðan spilað fjóra leiki með liðinu. Hann var í byrjunarliðinu í sigurleikjunum á Burnley og Brentford.

„Ég fór í gegnum tímabil í fyrra þar sem ég fór að hugsa: Kannski er þetta bara að vera búið,“ sagði hinn 35 ára gamli Jonny Evans á blaðamannafundi fyrir leik Norður-Írlands og Slóveníu í undankeppni EM.

„Ég ætlaði ekki að komast yfir þessi meiðsli og alltaf þegar ég kom til baka þá gerðist eitthvað. Það var fullt af fólki að segja mér að ferillinn minn væri ekki nálægt því að vera búinn en þú þarft að sanna það fyrir sjálfum þér og mér finnst ég hafa náð því,“ sagði Evans.

„Ég hef æft mikið, hef komist yfir þessi meiðsli og hef náð að klára leiki,“ sagði Evans. Hann er kominn aftur til félagsins þar sem hann ólst upp og lék 190 leiki frá 2006 til 2015.

„Ég hef verið ánægður með að komast aftur á þann stað að ná að klára fótboltaleiki heill. Mér finnst ég vera á góðum stað núna,“ sagði Evans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×