Íslenski boltinn

Gregg Ryder að taka við KR

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gregg Ryder hefur starfað fyrir ÍBV, Þrótt Reykjavík og Þór Akureyri hér á landi.
Gregg Ryder hefur starfað fyrir ÍBV, Þrótt Reykjavík og Þór Akureyri hér á landi. Vísir

Gregg Ryder, fyrrverandi aðstoðarþjálfari ÍBV, þjálfari Þróttar Reykjavíkur og Þór Akureyrar, mun stýra KR í Bestu deild karla í knattspyrnu á næstu leiktíð.

Þetta hefur Fótbolti.net eftir heimildum sínum. Verður ráðningin staðfest um helgina. Í frétt Fótbolti.net segir að verið sé að ganga frá ráðningu hins 35 ára gamla Ryder sem kemur frá Englandi en kom fyrst hingað til lands til að starfa sem aðstoðarþjálfari hjá ÍBV.

Þaðan fór hann til Þróttar og svo Þórs á Akureyri. Undanfarið hefur hann starfað hjá HB Köge í Kaupmannahöfn. Hefur hann þjálfað U-19 ára lið félagsins sem og verið aðstoðarþjálfari aðalliðsins sem leikur í B-deildinni þar í landi.

KR hefur verið í þjálfaraleit síðan ákveðið var að framlengja ekki við Rúnar Kristinsson. Mörg nöfn hafa verið nefnd við þjálfarastöðuna í Vesturbænum.

Óskar Hrafn Þorvaldsson var að því virðist efstur á blaði en hann tók við Haugasund í Noregi, Sigurður Ragnar Eyjólfsson vildi starfið en virðist ekki eiga upp á pallborðið hjá stjórn knattspyrnudeildar KR. Þá er talið að nokkrir þjálfarar hafi neitað starfinu eftir að KR hafði samband. Þeir munu þó ekki vera jafn margir og hefur verið greint frá í fjölmiðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×