Enski boltinn

„Planið gekk full­kom­lega upp í fyrri hálf­leik“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Erik ten Hag á hliðarlínunni í dag.
Erik ten Hag á hliðarlínunni í dag. EPA-EFE/ADAM VAUGHAN

Það var eðlilega frekar súr Erik ten Hag sem mætti í viðtal eftir 0-3 tap Manchester United gegn nágrönnum sínum í Manchester City í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni.

Man United tók á móti nágrönnum sínum á Old Trafford í dag. Heimamenn voru án nokkurra mikilvægra leikmanna og það sást bersýnilega þó svo að Ten Hag hafi verið sáttur framan af leik.

„Þetta svíður, sérstaklega því planið gekk fullkomlega upp í fyrri hálfleik. Það var aðeins vítaspyrnan sem breytti leiknum,“ sagði Hollendingurinn en gestirnir fengu vægast sagt umdeilda vítaspyrnu um miðbik fyrri hálfleiks.

„Ætla ekki að tjá mig,“ var svarið þegar þegar Ten Hag var spurður hvort honum fannst það vera vítaspyrna þegar Rasmus Höjlund setti hendina utan um Rodri þegar Man City átti aukaspyrnu.

„Við vildum spila út frá marki en að sama skapi vitum við að þeir munu pressa hátt og þá þurfum við að vera beinskeyttir. Það er það sem við reyndum að gera og mér fannst við verjast mjög vel.“

„Við pressuðum vel og hleyptum þeim ekki í góð færi. Svo áttum við góð augnablik þegar við sóttum hratt.“

„Við fengum færi en nýttum þau ekki og það er óheppni að fá á sig mörk eins og við gerðum. Þegar maður er yfirspilaður er auðvelt að sætta sig við það. Í öðru markinu gerðum við mistök og vorum ekki í janvægi, þá drepa þeir þig.“

„Í fyrri hálfleik gerðum við það fullkomlega og vörðumst vel ásamt því að fá færi þegar við sóttum hratt. Svo er það vítaspyrnan, það er svekkjandi.“

„Á sama tíma í fyrra var staðan sú sama,“ sagði Ten Hag að endingu um bilið á milli Man Utd og Man City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×