Enski boltinn

Roy Keane um Bruno: Hann er andstæða þess sem ég vil sjá í fyrirliða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bruno Fernandes er fyrirliði Manchester United en þykir ekki ráða vel við mótlæti inn á vellinum.
Bruno Fernandes er fyrirliði Manchester United en þykir ekki ráða vel við mótlæti inn á vellinum. Getty/James Gill

Roy Keane er einn af öflugustu fyrirliðum Manchester United á síðustu áratugum en hann hefur hins vegar ekki mikið álit á fyrirliðastörfum Portúgalans Bruno Fernandes.

Keane gekk svo langt eftir leik Manchester United og Manchester City í gær að hann vill að Erik ten Hag taki hreinlega fyrirliðabandið af Bruno Fernandes.

Erik ten Hag gerði Fernandes að fyrirliða liðsins þegar hann tók bandið af Harry Maguire. Keane segir að knattspyrnustjórinn ætti að viðurkenna að hann hafi gert mistök.

„Í dag horfði ég aftur á hann og eftir þessa frammistöðu myndi ég hundrað prósent taka af honum fyrirliðabandið,“ sagði Keane.

„Ég veit að þetta er stór ákvörðun, ekki síst þar sem þeir tóku fyrirliðabandið af Maguire en Fernandes er bara ekki fyrirliðatýpan,“ sagði Keane.

„Hann er hæfileikaríkur leikmaður það er enginn vafi á því. Miðað við það sem ég sá í dag og við höfum rætt þetta mörgum sinnum áður. Við sáum hann væla og kveina á móti Liverpool endalaust að setja hendurnar upp í loft,“ sagði Keane.

„Þetta er ekki boðlegt. Þú verður líka að byrja einhvers staðar. Við erum að tala um hvað þarf að gera fyrst til að leiðrétta hlutina hjá liðinu,“ sagði Keane.

„Fernandes er frábær fótboltamaður en en þegar kemur að fyrirliðastöðu liðsins þá er hann algjör andstæða þess sem ég við sjá í fyrirliða,“ sagði Keane.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×