Enski boltinn

Arnór orðaður við Leicester City

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnór Sigurðsson kann vel við sig á Englandi.
Arnór Sigurðsson kann vel við sig á Englandi. Alex Dodd/Getty Images

Landsliðsmaðurinn Arnór Sigurðsson er orðaður við Leicester City, topplið ensku B-deildarinnar, en hann spilar í dag með Blackburn Rovers í sömu deild.

Fótbolti.net greindi fyrst frá en heimildarmenn miðilsins segja að Leicester horfi hýru auga til hins 24 ára gamla Skagamanns sem er á sínu fyrsta tímabili í Englandi.

Arnór er enn í eigu CSKA Moskvu en eftir innrás Rússa í Úkraínu gátu erlendir leikmenn í Rússlandi farið frá sínum félögum á láni. Þá fór Arnór aftur til Norrköping þar sem hann hóf atvinnumannaferilinn. Þar blómstraði hann og Blackburn vildi í kjölfarið fá hann.

Alþjóðaknattspyrnusambandið leyfði leikmönnum einnig að fara á láni á þessari leiktíð og því fór Arnór til Englands. Hann verður svo samningslaus sumarið 2024 og getur þá samið við hvaða lið sem er.

Skagamaðurinn var meiddur þegar hann mætti til Blackburn en eftir að hann jafnaði sig af meiðslunum hefur hann spilað frábærlega fyrir liðið sem er um þessar mundir í 12. sæti ensku B-deildarinnar á meðan Leicester er á toppi deildarinnar. Fátt virðist geta komið í veg fyrir að Refirnir fari beint aftur upp eftir að hafa fallið úr ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.

Arnór hefur skorað fjögur mörk í átta leikjum fyrir Blackburn. Þá hefur hann spilað 28 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og skorað í þeim tvö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×