Stefán Teitur Þórðarson og liðsfélagar hans í danska liðinu Silkeborg tryggðu sér örugglega sæti í næstu umferð danska bikarsins eftir 5-1 sigur á Hvidovre. Stefán Teitur var í byrjunarliði Silkeborg sem leikur í úrvalsdeildinni líkt og Hvidovre sem vermir botnsæti deildarinnar.
Sigur Silkeborg í dag var öruggur. Liðið komst í 3-0 áður en heimamenn minnkuðu muninn og unnu að lokum öruggan 5-1 sigur.
Þá var Jón Dagur Þorsteinsson í byrjunarliði OH Leuven sem vann öruggan 5-0 sigur á Elene-Grotenberge í belgíska bikarnum. Jón Dagur var tekinn af velli á 68. mínútu í stöðunni 3-0.
Hólmberg Aron Friðjónsson var í framlínu Holstein Kiel sem mætti Magdeburg í annarri umferð þýska bikarsins en bæði lið leika í næst efstu deild í Þýskalandi. Gestirnir frá Magdeburg komust í 2-0 í fyrri hálfleik en Holstein Kiel tókst að jafna metin í síðari hálfleiknum eftir tvö sjálfsmörk leikmanna Magdeburg.
Hólmbert Aron var tekinn af velli á 75. mínútu þegar staðan var 2-2. Staðan að loknum venjulegum leiktíma var 2-2. Í framlengingunni voru það gestirnir frá Magdeburg sem komust í 3-2 með marki í upphafi framlengingar en heimamenn jöfnuðu í uppbótartíma og því varð að grípa til vítaspyrnukeppni.
Þar voru heimamenn sleipari á svellinu. Þeir skoruðu úr fjórum spyrnum en Holstein Kiel aðeins úr þremur. Magdeburg tryggir sér þar með sæti í þriðju umferð bikarsins.
Fréttin hefur verið uppfærð með lokastöðu í leik Holstein Kiel og Magdeburg.