Enski boltinn

Vand­ræði Man Utd halda á­fram: Ca­semiro meiddur af velli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Fór meiddur af velli gegn Newcastle United.
Fór meiddur af velli gegn Newcastle United. Simon Stacpoole/Getty Images

Ekki nóg með að Manchester United hafi steinlegið á heimavelli gegn Newcastle United í leik liðanna í enska deildarbikarnum heldur fór brasilíski miðjumaðurinn Casemiro meiddur af velli í hálfleik. Ólíklegt er að hann verði með liðinu um komandi helgi.

Það gengur vægast sagt ekki neitt upp hjá Manchester United og virðist liðið fast í eilífðar hringrás þess að eiga ágætt tímabil en geta svo bókstaflega ekkert tímabilið eftir.

Þó sumt stuðningsfólk félagsins fagni því að liðið sé úr leik í deildarbikarnum þar sem hann er óþarfa álag á leikmenn sem eru nú þegar að spila alltof marga leiki þá fagnar því engin að tapa leik 0-3 eftir að hafa tapað 0-3 gegn Manchester City um helgina.

Til að bæta gráu ofan á svart þá fór Casemiro, fyrirliði Man United gegn Newcastle, meiddur af velli í hálfleik. Hann mun að öllum líkindum vera frá keppni vel inn í nóvember.

„Hann varð fyrir meiðslum rétt fyrir lok fyrri hálfleiks. Þess vegna þurftum við að taka hann af velli,“ sagði Erik ten Hag, þjálfari félagsins um meiðsli Casemiro.

Hinn 31 árs gamli Casemiro var ekki með Man Utd í nágrannaslagnum gegn City vegna meiðsla og nú er næsta öruggt að hann verði ekki með gegn Fulham um helgina.

Ten Hag var spurður hvort það mætti búast við Casemiro til baka áður en landsleikjahléið um miðjan mánuð hefst en sá hollenski sagðist ekki getað svarað því.

Man United er nú þegar án Luke Shaw, Lisandro Martínez, Tyrell Malacia og Amad Diallo. Þeir Raphaël Varane, Aaron Wan-Bissaka og Mason Mount hafa verið frá vegna meiðsla. Þá er Jadon Sancho enn í agabanni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×