Innlent

Stöðugur straumur út úr Grinda­vík

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá Suðurstrandavegi klukkan 19:31. Allajafna er ekki mikil umferð á þessum tíma um veginn. Myndin er úr vefmyndavél Vegagerðarinnar.
Frá Suðurstrandavegi klukkan 19:31. Allajafna er ekki mikil umferð á þessum tíma um veginn. Myndin er úr vefmyndavél Vegagerðarinnar. Vegagerðin

Stöðug umferð hefur verið út úr Grindavík síðan stóru skjálftarnir byrjuðu að ríða yfir síðdegis. Hámarki var náð á sjötta tímanum og er umferð um Grindavíkurveg lokuð eftir að brotnaði upp úr malbiki.

Hjálmar Hallgrímsson starfar hjá lögreglunni í Grindavík.

„Fólk er að fara út úr bænum,“ segir Hjálmar. Umferð er lokuð um Grindavíkurveg vegna skemmdanna svo fólki hefur úr tveimur vegum að velja; Suðurstrandarvegi og Nesvegi.

Rauði vegurinn í norður-suður er Grindavíkurvegur, á milli Reykjanesbrautar og Grindavíkur. Skemmd er í veginum við Þorbjörn eins og merkt er á korti Vegagerðarinnar.

Hjálmar segir stöðugan straum út úr bænum. Hún hafi verið mikil eftir skjálftana en eitthvað minnkað.

„Það er stöðugur straumur.“

Almannavarnir lýstu yfir hættustigi um sexleytið. Engar ákvarðanir hafa verið teknar um rýmingu. Víðir Reynisson sviðsstjóri almannavarna sagði í fréttum Stöðvar 2 að það væri engin ástæða fyrir Grindvíkinga að yfirgefa bæinn.

„Við höfum ekki farið í rýmingar enn þá. Fólk tekur bara eigin ákvarðanir. Það er ekkert óeðlilegt við þetta. Fólk fer bara í rólegheitum.“

Lögregla reyni að halda utan um hlutina í Grindavík þar sem gengur á með snörpum skjálftum. Hann er ekki meðvitaður um skemmdir í heimahúsum í bænum en miðað við skemmdirnar á Grindavíkurvegi hljóti einhverjir húsmunir að skemmst í skjálftunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×