Enski boltinn

Aston Villa í Meistara­deildar­bar­áttu en Brig­hton fatast flugið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
John McGinn skoraði eitt marka Villa í dag.
John McGinn skoraði eitt marka Villa í dag. Shaun Botterill/Getty Images

Aston Villa vann 3-1 sigur á Fulham í ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu. Sigurinn þýðir að Villa er komið í hörku baráttu um sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. Slakt gengi Brighton & Hove Albion heldur áfram og þá unnu Hamrarnir í West Ham United góðan sigur.

Sigur Aston Villa á Fulham var einkar öruggur en liðið komst yfir eftir tæplega hálftíma þökk sé sjálfsmarki vinstri bakvarðar gestanna, Antonee Robinson. Skotinn geðþekki John McGinn tvöfaldaði forystuna áður en fyrri hálfleikur var úti.

Eftir rúma klukkustund kom Ollie Watkins heimamönnum 3-0 yfir og gerði endanlega út um leikinn. Litlu máli skipti þó Raul Jímenez hafi minnkað muninn þegar tuttugu mínútur lifðu leiks. Lokatölur á Villa Park 3-1 og heimamenn nú unnið 13 heimaleiki í röð.

Aston Villa er í 5. sæti með 25 stig, aðeins tveimur stigum á eftir Liverpool sem er í 2. sæti deildarinnar. Fulham er í 16. sæti með 12 stig.

Þrátt fyrir að komast yfir snemma leiks þökk sé marki Simon Adingra þá þurfti Brighton að sætta sig við 1-1 jafntefli gegn nýliðum Sheffield United.

Mahmoud Dahoud fékk rautt spjald í liði Brighton á 69. mínútu og fimm mínútum síðar jöfnuðu gestirnir þegar Adam Webster setti boltann í eigið net. Eftir góða byrjun á tímabilinu er farið að halla undan fæti hjá Brighton.

Brighton er í 8. sæti með 19 stig en Sheffield í næstneðsta sæti með aðeins fimm stig.

David Moyes andar léttar eftir að lærisveinar hans í West Ham unnu 3-2 sigur á Nottingham Forest. Lucas Paquetá kom Hömrunum yfir en Taiwo Awoniyi jafnaði metin fyrir gestina, staðan 1-1 í hálfleik.

Anthony Elanga kom gestunum yfir í síðari hálfleik en Jarrod Bowen jafnaði aðeins tveimur mínútum síðar eftir sendingu James Ward-Prowse. 

Sá síðarnefndi lagði svo upp sigurmarkið en það skoraði Tomáš Souček á 88. mínútu. Ward-Prowse hefur nú skorað tvö mörk og gefið fimm stoðsendingar í 11 deildarleikjum fyrir Hamrana á leiktíðinni. Lokatölur í Lundúnum 3-2 West Ham í vil.

West Ham er í 9. sæti með 17 stig en Forest í 15. sæti með 13 stig.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×