Innlent

Þó nokkur verk­efni vegna öku­manna og annarra í annar­legu á­standi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla sinnti ýmsum verkefnum í umferðinni í nótt auk þess að vísa einstaklingum í annarlegu ástandi út þar sem þeir voru ekki velkomnir.
Lögregla sinnti ýmsum verkefnum í umferðinni í nótt auk þess að vísa einstaklingum í annarlegu ástandi út þar sem þeir voru ekki velkomnir. Vísir/Vilhelm

Lögregla sinnti nokkrum útköllum í gærkvöldi og nótt þar sem tilkynnt var um einstaklinga í annarlegu ástandi og aðstoðar þurfti við til að koma þeim á brott.

Þá var nokkuð um uppákomur þar sem ökumenn undir áhrifum vímuefna komu við sögu.

Í Kópavogi var lögreglu kölluð til vegna manns sem var sagður æstur og hafa valdið skemmdum á sameign fjölbýlishúss. Reyndist hann verulega ölvaður og var handtekinn og vistaður í fangageymslu.

Lögreglu í Kópavogi barst einnig tilkynning um ökumann sem hafði ekið utan í kyrrstæðar bifreiðar og reyndist sá einnig mjög greinilega undir áhrifum; var sljór og átti erfitt með tal og að halda sér vakandi. Hann var sömuleiðis handtekinn og vistaður í fangageymslu.

Í póstnúmerinu 104 voru skráningarmerki fjarlægð af nokkrum ökutækjum þar sem ekki hafði verið staðið í skilum á vátryggingu þeirra. Þá var tilkynnt um þjófnað í matvöruverslun en þjófurinn var á brott þegar lögregla mætti á vettvang og fannst ekki við leit.

Einn var stöðvaður í 104 sem játaði að hafa neytt áfengis fyrr um kvöldið og reyndist undir áhrifum. Þá barst tilkynning um ökumann sem ók á ljósastaur í póstnúmerinu 103 en hann var enn í ökumannssætinu þegar komið var að og var greinilega ölvaður.

Lögreglu bárust einnig tilkynningar um mann sem var sagður hafa ráðist á starfsmann hótels í miðborginni og grunsamlegan mann með kúbein í Garðabæ. Hvorugur fannst þrátt fyrir leit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×