Enski boltinn

Óttast það að Ödegaard hafi fengið heila­hristing á æfingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Ödegaard er mikilvægur leikmaður fyrir Arsenal og getur vonandi spilað aftur eftir landsleikjahlé.
Martin Ödegaard er mikilvægur leikmaður fyrir Arsenal og getur vonandi spilað aftur eftir landsleikjahlé. EPA-EFE/NEIL HALL

Martin Ödegaard, fyrirliði Arsenal, hefur misst af síðustu leikjum enska fótboltaliðsins og nú er að koma betur í ljós hvað er að angra hann.

Ensku miðlarnir The Daily Mail og Mirror segja frá því að Ödegaard hafi líklegast fengið heilahristing á æfingu með Arsenal. Það sé ástæðan fyrir að hann var ekki með liðinu í leikjum á móti Newcastle, Sevilla og Burnley.

Ödegaard er vissuleg að glíma við meiðsli mjöðm líka og það var talið að væri ástæðan fjarveru hans í leikjunum.

Hann fékk hins vegar boltann í hausinn á æfingu fyrir leik liðsins á móti Newcastle 4. nóvember síðastliðinn.

Reglurnar segja að þegar leikmaður fær heilahristing þá má hann ekki taka þátt í æfingum eða leikjum sex næstu daga. Hann má heldur ekki byrja aftur fyrr en leikmaðurinn er alveg einkennalaus.

Ödegaard verður ekki með norska landsliðinu í leikjum á móti Færeyjum og Skotlandi í undankeppni EM í þessari viku.

NRK hefur það eftir norska landsliðsþjálfaranum Ståle Solbakken að hann hafi vitað af ástandi Ödegaard en að nú fái hann fjórtán daga til að æfa til að koma sér aftur í gang.

Daily Mail heldur því fram að Ödegaard verði leikfær í fyrsta leik Arsenal eftir landsleikjahlé sem verður á móti Brentford 25. nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×