Enski boltinn

Tíu stig dregin af Everton

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Everton vann Crystal Palace, 0-1, í síðasta leik sínum í ensku úrvalsdeildinni.
Everton vann Crystal Palace, 0-1, í síðasta leik sínum í ensku úrvalsdeildinni. getty/Clive Rose

Tíu stig hafa verið dregin af Everton í ensku úrvalsdeildinni fyrir brot á reglum ensku úrvalsdeildarinnar um hagnað og sjálfbærni í rekstri.

Everton tapaði 124,5 milljónum punda á þriggja ára tímabili en félög mega ekki tapa meira en 105 milljónum punda.

Farið var fram á að tólf stig yrðu dregin af Everton en úrvalsdeildin kom sér ekki saman um þá refsingu. Óháð nefnd komst því að þeirri niðurstöðu að dæma tíu stig af Everton.

Everton færist með þessu niður um fimm sæti, úr því fjórtánda niður í það nítjánda. Liðið er nú með fjögur stig og er fimm stigum frá öruggu sæti. Everton tekur á móti Manchester United á sunnudaginn.

Þetta er í þriðja sinn sem stig eru dregin af liði í ensku úrvalsdeildinni. Þrjú stig voru dregin af Middlesbrough fyrir að mæta ekki til leiks gegn Blackburn Rovers tímabilið 1996-97 og níu stig voru dregin af Portsmouth eftir að félagið fór í greiðslustöðvun 2009-10.

Í yfirlýsingu segist Everton vera í áfalli og hafa orðið fyrir vonbrigðum með úrskurðinn og ætlar að áfrýja.

Jafnframt segir í yfirlýsingunni að Everton ætli að fylgjast náist með ákvörðunum um sambærileg mál annarra félaga. Nokkuð ljóst er að Everton vísar þar til meintra brota Manchester City sem telja 115.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×