Erlent

Stærsti spítali Gasa rýmdur og tugir drepnir í flótta­manna­búðum

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Palestínumenn flytja slasaða konu úr rústum flóttamannabúða eftir loftárás Ísraelshers við bæinn Khan Younis í suðurhluta Gasa.
Palestínumenn flytja slasaða konu úr rústum flóttamannabúða eftir loftárás Ísraelshers við bæinn Khan Younis í suðurhluta Gasa. AP

Meira en hundrað manns létu lífið í þremur loftárásum Ísraelshers í dag. Þá var um 120 manns gert að yfirgefa stærsta spítala Gasastrandarinnar vegna húsleitar Ísraelshers. 

Hundruðir sjúklinga, starfsfólks og aðstandenda rýmdu stærsta spítalann á Gasastöndinni í dag á meðan menn Ísraelshers leituðu af sér grun að stjórnstöð Hamas-samtakanna sem þeir telja að sé staðsett undir spítalanum. Bæði Hamas-liðar og starfsfólk spítalans hafa neitað að samtökin starfi undir spítalanum. 

Minnst fimmtíu eru taldir af eftir loftárás á Jabaliya flóttamannabúðirnar í norðurhluta Gasa í dag. Skotmark árásarinnar var skóli sem rekinn hefur verið af Sameinuðu þjóðunum. Skólinn eyðilagðist mikið, að sögn slasaðra sjónarvotta sem AP ræddi við. 

Önnur loftárás sem gerð var á nærliggjandi byggingu varð minnst 32 að bana, að sögn heilbrigðisráðuneytis Hamas. Þar af voru nítján börn drepin. 

Ísraelsher kvaðst hafa varað íbúa Gasa við loftárásinni í samfélagsmiðlafærslu. Að einungis hefði verið skotið í þeim tilgangi að fella hryðjuverkamenn Hamas. 

Snemma í morgun var gerð loftárás rétt fyrir utan bæinn Khan Younis í suðurhluta Gasa. Minnst 26 létu lífið. Því má ætla að minnst 108 manns hafi látist í sprenginum Ísraelshers í dag.

„Flóttamannabúðir eru gerðar fyrir öryggi. Skólar eru gerðir til þess að læra. Hryllilegar fréttir af börnunum, konunum og mönnunum sem létust meðan þau dvöldu í al-Fakhouri skólanum í norðurhluta Gasa,“ sagði Martin Griffiths, aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna á X í dag. „Óbreyttir borgarar geta ekki og eiga ekki að þurfa að sætta sig við þetta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×