Fótbolti

Luka­ku skoraði fernu í fyrri hálf­leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Romelu Lukaku skemmti sér vel í kvöld.
Romelu Lukaku skemmti sér vel í kvöld. EPA-EFE/OLIVIER MATTHYS

Belgía rúllaði Aserbaísjan upp í lokaleik þjóðanna í undankeppni EM 2024. Þá vann Svíþjóð 2-0 sigur á Eistlandi.

Belgía hafði þegar tryggt sér sæti á EM karla í knattspyrnu sem fram fer í Þýskalandi en þurfti sigur til að tryggja efsta sæti F-riðils. Aserarnir stóðu örlítið í heimamönnum en eftir að fá á sig mark og rautt spjald sjö mínútum síðar hrundi spilaborgin.

Romelu Lukaku kom Belgíu yfir eftir undirbúning Jérémy Doku á 17. mínútu. Eddy Israfilov fékk gult spjald á 20. mínútu og annað fjórum mínútum síðar, Aserarnir því manni færri það sem eftir lifði leiks.

Á 26. mínútu bætti Lukaku við öðru marki sínu og fullkomnaði þrennuna aðeins fjórum mínútum síðar. Á 37. mínútu bætti Lukaku við fjórða marki Belga og þannig var staðan í hálfleik. Belgía skoraði vissulega eitt mark til viðbótar en markið var dæmt af vegna rangstöðu.

Fimmta markið kom undir lok venjulegs leiktíma, Leandro Trossard skilaði boltanum þá í netið eftir undirbúning Doku. Lokatölur 5-0 og toppsætið var Belga.

Belgía endaði í efsta sætinu með 20 stig að loknum 8 leikjum. Austurríki kom þar á eftir með 19 stig en Svíþjóð voru í 3. sæti með 10 stig eftir 2-0 sigur á Eistlandi. Viktor Claesson og Emil Forsberg skoruðu mörk Svía.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×