Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, segir alla starfsemi fyrirtækisins í Grindavík hafa verið flutta annað eftir að bærinn var rýmdur. Rýmingin sem tekur gildi í dag breyti því ekki miklu fyrir starfsemi fyrirtækisins. En skipti auðvitað höfuðmáli fyrir starfsfólk sem margt er búsett í bænum.
„Við höfum verið með vélstjóra á staðnum sem hefur verið að sjá um viðhald fasteigna og annað slíkt, segir Pétur.
Neyðarstigi almannavarna var aflétt klukkan 11 og farið niður á hættustig. Íbúar í Grindavík voru beðnir um að skrá sig á Island.is og sækja þar um heimild til að fara til bæjarins í dag.
Lykilstarfsemi á þessum tíma er að sögn Péturs saltfiskur sem sé verið að verka. Hægt hafi verið á annarri starfsemi á meðan enn sé óvissa. Á meðan henni stendur hefur saltfiskvinnslan verið flutt til Þorlákshafnar.
„Það tekur tuttugu daga, ferlið, og það er verið að klára það í Þorlákshöfn. Því lýkur um miðjan desember. Svo eru skipin á sjó og útgerðarhlutinn er í Hafnarfirði,“ segir Pétur og að starfsfólk skrifstofunnar hafi fengið aðstöðu á Höfða í Reykjavík.
„Svo fóru 50 til 60 manns heim til Póllands,“ segir Pétur en alls voru starfsmenn Vísis í Grindavík um 160.
Hann segir þriðjung þeirra í verkefnum í Þorlákshöfn, Hafnarfirði eða á Höfða. Restin af starfsfólki sé enn heima, að hugsa um börn og vinna að því að finna sér varanlegt húsnæði. Hann segir að starfsfólki hafi verið gefið út vikuna og svo eigi að taka upp þráðinn eftir helgi.
„Við munum nýta okkur það í næstu viku að vinna betur í húsunum, ganga frá og verja þau og sinna viðhaldi. Það þarf að yfirfara lagnir og undirbúa annað hvort stutt eða langt stopp,“ segir Pétur. Hann segir að hægt verði að skipuleggja viðhaldsvinnu og eftirlit án þess að það sé á harðahlaupum eins og það hafi verið síðustu daga.
„Við reynum að stefna að því hafa húsin tilbúin um leið og grænt ljós kæmi.“
Þannig þið viljið fara aftur þangað til að vinna?
„Við gerum það um leið og Guð og góðir vættir leyfa. Húsin og höfnin eru óskemmd en það þarf auðvitað fara fram heilmikið skipulag áður en það gerist.“
Fréttin hefur verið uppfærð. Vinnsla hefst ekki í næstu viku heldur á aðeins að undirbúa húsin í Grindavík fyrir vinnslu þannig þau séu til þegar hún má hefjast.