Líkt og greint hefur verið frá í fjölmiðlum síðan í gær var Arndís Anna handtekin á skemmtistaðnum um helgina. Hún á að hafa verið of lengi á salernisaðstöðu staðarins.
Aðkoma lögreglu var að beiðni dyravarða, sem hún hefur áður sagt að hafi að hennar mati brugðist of harkalega við. Hins vegar hefur hún hrósað þætti lögreglunnar í málinu.
„Þetta mál er mér ekki til sóma og mér þykir það mjög leiðinlegt. Ég var búin að drekka of mikið og brást illa við þegar dyraverðir opnuðu hurðina á klósettinu, ég var dónaleg og streittist á móti. Óháð öllu öðru, var hegðun mín ekki til fyrirmyndar. Ég hef beðið hlutaðeigandi afsökunar á framkomu minni,“ segir í yfirlýsingu frá Arndís sem hún sendi á fjölmiðla síðdegis í dag.
Þar segir hún jafnframt að því fylgi ábyrgð að vera kjörinn fulltrúi, og henni þyki leiðinlegt að hafa brugðist svona við.
„Það eru forréttindi að vera kjörinn fulltrúi, því fylgir ábyrgð og mér þykir leitt að hafa brugðist svona við.“
Í viðtali við Vísi í gær sagði Arndís að líklega væri ástæðan fyrir handtökunni sú að hún hefði verið kjaftfor.
Hún neitaði því að hafa neytt fíkniefna á salerninu. „Áfengi og kaffi eru einu fíkniefnin í mínu lífi,“ sagði hún.
„Þetta er mjög undarlegt þegar allt kemur til alls. Þetta eru mjög hörð viðbrögð hjá dyravörðum, en annað er tiltölulega eðlilegt,“ sagði Björn Leví Gunnarsson, varaþingflokksformaður Pírata í samtali við Vísi í dag.
Hann sagði að rætt hafi verið um málið innan þingflokksins, en taldi að það myndi ekki hafa afleiðingar.
„Þetta er mjög vel útskýrt og öll málsatriði augljós og útskýranleg, nema kannski viðbrögð dyravarðanna,“ sagði hann.
Þingflokkur Pírata hafði verið að skemmta sér fyrr þetta sama kvöld, nánar tiltekið fóru þau í karókí saman á Pablo Discobar við Ingólfstorg.
Björn segist ekki vita til þess að aðrir úr hópi Pírata hafi farið með Arndísi Önnu á skemmtistaðinn Kíki. Sjálfur hafi hann að minnsta kosti verið farinn heim.
Fréttin hefur verið uppfærð.