Enski boltinn

Gömul hetja vill sjá Garnacho hætta að apa eftir Ronaldo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alejandro Garnacho fagnar marki sínu fyrir Manchester United á móti Everton.
Alejandro Garnacho fagnar marki sínu fyrir Manchester United á móti Everton. AP/Jon Super

Alejandro Garnacho skoraði stórkostlegt mark með bakfallsspyrnu í sigri Manchester United á Everton um helgina, mark sem Cristiano Ronaldo hefði verið mjög stoltur af. Þetta var líka mark sem aðeins maður með hæfileika, hroka og sjálfstraust Ronaldo gæti skorað.

Garnacho hefur ekki farið leynt með það að Ronaldo er í miklu uppáhaldi hjá honum og hann er án nokkurs vafa hans átrúnaðargoð.

Arturo Vidal, fyrrum leikmaður Juventus, Bayern og Barcelona, vildi þó gefa þessum nítján ára strák eitt gott ráð.

Vidal ráðleggur honum að hætta að apa eftir Cristiano Ronaldo og einbeita sér frekar að því að skapa sitt eigið nafn. Þetta kemur til vegna þess að Garnacho apar alltaf eftir Cristiano Ronaldo í fagnaðarlátum sínum.

Vidal skar sig vissulega úr með þessu því allir hafa skiljanlega keppst við að hrósa stráknum fyrir þetta stórbrotna mark hans.

„Það versta við þetta er að hann hegðaði sér eins og hann væri Cristiano Ronaldo. Hann verður að skapa sitt eigið nafn. Hann er þegar orðinn frábær leikmaður“ sagði Vidal.

„Það er gott að hann eigi sér sitt átrúnaðargoð, ég ber virðingu fyrir því, en hann verður að búa til sitt eigið nafn í fótboltanum. Ég ráðlegg honum að finna upp á einhverju nýju fagni og einhverju sem er hans“ sagði Vidal.

„Þetta var samt stórkostlegt mark,“ sagði Vidal. Það er hægt að taka undir það. Það er erfitt að sjá einhvern skora flottara mark á þessu tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×