Enski boltinn

Liverpool vonast til þess að Alisson nái Man. Utd leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alisson Becker var svekktur eftir að hann meiddist á móti Manchester City en Jürgen Klopp reynir hér að hughreysta hann.
Alisson Becker var svekktur eftir að hann meiddist á móti Manchester City en Jürgen Klopp reynir hér að hughreysta hann. Getty/Michael Regan

Alisson Becker meiddist um helgina og verður ekki með Liverpool liðinu á næstunni. Hann missir af Evrópuleiknum í kvöld og verður hugsanlega frá í tvær vikur.

Alisson tognaði aftan í læri í lok leiksins á móti Manchester City. Nú er komið í ljós að meiðslin eru sem betur fer fyrir Liverpool ekki mjög alvarleg.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, ræddi stöðuna á brasilíska markverðinum á blaðamannafundi fyrir leik Liverpool á móti LASK í Evrópudeildinni.

„Við verðum að sjá til. Hann mun ekki spila á morgun [Fimmtudag] eða á sunnudaginn og líklega ekki heldur vikuna eftir það. Eftir það þá ætti þetta að vera í lagi,“ sagði Klopp.

Samkvæmt þeirri tímalínu þá mun Alisson missa af leikjum á móti Fulham, Sheffield United og Crystal Palace.

Klopp vonast því til að hann geti spilað leikinn á móti Manchester United á Anfield sem fer fram 17. desember næstkomandi.

Þýski stjórinn færði blaðamönnum enn verri fréttir af Diogo Jota sem verður frá æfingum og keppni í margar vikur.

Andy Robertson, Thiago Alcantara og Stefan Bajcetic eru líka allir á meiðslalistanum.

Ef Liverpool fær stig í leiknum í kvöld þá tryggir liðið sér sæti í útsláttarkeppni Evrópudeildarinnar.

Leikur Liverpool og LASK í kvöld verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 3 og hefst útsendingin klukkan 19.50.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×