Handbolti

HM í hand­bolta: Angóla ná­lægt því að stela stigi gegn Frakk­landi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Frakkland vann eins nauman sigur og hægt er.
Frakkland vann eins nauman sigur og hægt er. EPA-EFE/Beate Oma Dahle

Angóla og Frakkland, hin liðin í riðli Íslands á HM kvenna í handbolta, mættust í kvöld. Var Angóla grátlega nálægt því að stela stigi gegn Frakklandi.

Fyrr í kvöld hafði Ísland tapað gegn Slóveníu sem tyllti sér þar með á topp D-riðils. Ísland mætir svo Frakklandi á laugardag og Angóla á mánudag.

Leikur Angóla og Frakklands var hin mesta skemmtun en Angóla kom gríðarlega á óvart og leiddi mest með þremur mörkum snemma í fyrri hálfleik. Frakkarnir létu það ekki á sig fá og sneru taflinu við fyrir hálfleik, staðan þá 18-15 Frakklandi í vil.

Angóla lét ekki deigan síga og minnkaði muninn í aðeins eitt mark snemma í síðari hálfleik. Staðan var svo jöfn þegar skammt var til leiksloka. Á endanum reyndist Frakkland sterkara og vann eins nauman sigur og hægt er, lokatölur 30-29.

Frakkland og Slóvenía eru þar af leiðandi með tvö stig eftir fyrstu umferð en Ísland og Angóla án stiga.

Alicia Toublanc og Chloé Valentini voru markahæstar hjá Frakklandi með 6 mörk hvor. Isabel Evelize Wangimba Guialo var markahæst hjá Angóla, einnig með 6 mörk.

Aðrir leikir voru ekki jafn spennandi. Ungverjaland vann Paragvæ með 23 marka mun, lokatölur 35-12. Pólland vann Íran með 20 marka mun, 35-15 og Tékkland vann Kongó með 10 marka mun, 32-22.


Tengdar fréttir

HM í hand­bolta: Þýska­land marði Japan

Fjórum af leikjum dagsins á HM kvenna í handbolta er nú lokið. Ísland tapaði fyrir Slóveníu en á sama tíma vann Þýskaland eins marks sigur á Japan, Svartfjallaland rúllaði yfir Kamerún og Holland skoraði 41 mark gegn Argentínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×