Mögnuð endur­koma Liverpool í ó­trú­legum leik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Trent Alexander-Arnold skoraði fyrsta og seinasta mark Liverpool í dag.
Trent Alexander-Arnold skoraði fyrsta og seinasta mark Liverpool í dag. Chris Brunskill/Fantasista/Getty Images

Liverpool vann ótrúlegan 4-3 sigur er liðið tók á móti Fulham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Það voru heimamenn í Liverpool sem tóku forystuna eftir um tuttugu mínútna leik þegar Trent Alexander-Arnold skoraði glæsilegt mark. Aukaspyrna bakvarðarins fór í slána og inn og staðan því orðin 1-0.

Gestirnir jöfnuðu þó metin fjórum mínútum síðar þegar gamli Liverpool-maðurinn Harry Wilson kom boltanum í netið, en Alexis Mac Allister kom heimamönnum í forystu á ný á 38. mínútu með þrumuskoti fyrir utan teig.

Heimamenn virtust því ætla að fara með forystuna inn í hálfleikinn, en Kenny Tete jafnaði metin í annað skipti fyrir gestina á þriðju mínútu uppbótartíma og staðan því 2-2 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Varamaðurinn Bobby De Cordova-Reid kom gestunum svo yfir þegar um tíu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma, aðeins fimm mínútum eftir að hann kom inn á sem varamaður.

Wataru Endo átti þó enn betri innkomu fyrir Liverpool, en hann jafnaði metin með góðu skoti fyrir utan teig á 87. mínútu, aðeins þremur mínútum eftir að hann kom inn á sem varamaður. Heimamenn ætluðu þó ekki að sætta sig við bara eitt stig og strax í næstu sókn kom Trent Alexander-Arnold liðinu í forystu í þriðja sinn eftir stoðsendingu frá Kostas Tsimikas og þar við sat.

Niðurstaðan því 4-3 sigur Liverpool sem nú situr í öðru sæti deildarinnar með 31 stig eftir 14 leiki. Fulham situr hins vegar í 14. sæti með 15 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira