Samkvæmt RÚV er Edda vistuð í sama fangelsi og Anders Behring Breivik var í í rúman áratug. Fangelsinu var þó breytt í kvennafangelsi fyrr á árinu og segir Jóhannes að ekki sé tilefni í að gera mál úr því.
Strangara en á Íslandi
Samskipti hennar utan fangelsisins eru mjög takmörkuð og hefur hún aðeins leyfi fyrir þrjátíu mínútna símtal á viku fresti við fjölskyldu sína.
Jóhannes Karl segir Norðmenn vera töluvert strangari í þessum málum en við Íslendingar og aðspurður segir hann samskiptatakmarkanir sem Edda þurfi að sæta ekki eðlilegar.
„Nei, þetta er strangara en við eigum að venjast. Í íslensku gæsluvarðhaldi eins og hún var í hérna áður mátti hún alveg fá heimsóknir frá ættingjum og hringja í lögmann hvenær sem var. En það eru miklu meiri hömlur þarna,“ segir Jóhannes.
Gæti ekki meðalhófs
Jafnframt segir Jóhannes að norsk yfirvöld séu ekki að gæta meðalhófs í málinu.
„Nei, mér finnst það nú ekki. Sérstaklega í ljósi þess að hún hafi aldrei skrópað við nein réttarhöld,“ svarar hann.
Ekki liggur fyrir hvenær mál Eddu Bjarkar verði tekið fyrir dóm.