Haukar og Álftanes gerðu nýverið nokkuð sem þekkist einfaldlega ekki hér á landi. Þau skiptu á leikmönnum. Daniel Love fór til Hauka og Ville Tahvanainen í hina áttina. Þessi skipti virðast vægast sagt hafa gengið vel, allavega fyrir Love og Hauka en hann skoraði 26 stig og tók 6 fráköst í sigri Hauka á Hetti.
„Þú sérð það að Höttur getur ekki fallið jafn mikið inn í teig eins og var verið að gera á hann þegar hann var í Álftanesi, það eru miklu betri skyttur í þessu Haukaliði. Hann er eins og kálfur út á vorin núna.
Held að þetta hafi ekkert með annan hvorn þjálfarann að gera, þetta set up hentar honum miklu betur heldur en það sem hann var í hjá Álftanesi. Alveg eins og það hentar Ville miklu betur að vera í Álftanesi,“ sagði Ómar Sævarsson og Magnús Þór Gunnarsson tók undir.
„Þetta er akkúrat þannig. Þarna er hann að fá boltann, búa til og leika sér aðeins, eins og hann vill. Ville bíður, pick and roll, klikkar einhver og þá fær hann frítt skot í horninu. Win-Win fyrir bæði lið.“
„Talandi um Win-Win, hvort liðið vann samt,“ spurði Stefán Árni í kjölfarið. Svarið við því má sjá í spilaranum hér að neðan.