Enski boltinn

Klopp snöggreiddist eftir mis­heppnaðan brandara í beinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp var allt annað en ánægður með brandara spyrilsins.
Jürgen Klopp var allt annað en ánægður með brandara spyrilsins. Getty/Simon Stacpoole

Jürgen Klopp og Liverpool fólk hefur kvartað mikið yfir því að liðið sé alltaf að spila klukkan hálfeitt á laugardögum og þá sérstaklega eftir landsleikjahlé.

Ekkert lið í ensku úrvalsdeildinni hefur lent jafnoft í þessu og Liverpool en Liverpool menn eru meira að segja í algjörum sérflokki. Þetta er líka viðkvæmt mál á Anfield en marka má viðbrögð knattspyrnustjóra félagsins.

Liverpool vann 2-0 sigur á Sheffield United í vikunni þökk sé mörkum frá Virgil van Dijk and Dominik Szoboszlai á Bramall Lane og eftir leikinn var Marcus Buckland á Amazon Prime með Jürgen Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool, í beinni.

Buckland ætlaði að vera sniðugur þegar hann spurði út í næsta leik Liverpool sem verður einmitt á laugardaginn á móti Crystal Palace og auðvitað klukkan 12.30.

„Þið eruð að fara á útivöll á móti Crystal Palace um helgina og hann er spilaður á uppáhaldstíma ykkar,“ sagði Marcus Buckland en kveikti með því heldur betur í stjóra Liverpool sem snöggreiddist og greip fram í fyrir honum.

„Það er gott hjá þér að grínast með það, virkilega hugrakkt af þér. Ég átta mig á því að þú skilur ekki um hvað þetta snýst og samt ertu að vinna við fótbolta. Af hverju ætti ég því að útskýra það aftur. Það lýsir ákveðni fáfræði hjá þér að grínast með svona hluti,“ svaraði Jürgen Klopp fúll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×