Enski boltinn

Stuðnings­maður Chelsea réðist á mark­vörð Newcastle

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gæslumönnum tókst ekki að stöðva för stuðningsmanns Chelsea inn á völlinn.
Gæslumönnum tókst ekki að stöðva för stuðningsmanns Chelsea inn á völlinn.

Eftir jöfnunarmark Mykhailos Mudryk fyrir Chelsea gegn Newcastle United í enska deildabikarnum í gær réðist stuðningsmaður Chelsea inn á völlinn og fagnaði fyrir framan markvörð Newcastle, Martin Dubravka.

Chelsea tryggði sér sæti í undanúrslitum enska deildabikarsins með 4-2 sigri á Newcastle eftir vítaspyrnukeppni í gær.

Newcastle náði forystunni á 16. mínútu þegar Callum Wilson skoraði. Allt benti til þess að það mark myndi duga Skjórunum til sigurs en þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma jafnaði Mudryk fyrir Chelsea og því þurfti að grípa til vítakeppni.

Eftir mark Mudryks hljóp stuðningsmaður Chelsea inn á völlinn og utan í Dubravka sem var skiljanlega pirraður.

Knattspyrnustjórar Chelsea og Newcastle, Mauricio Pochettino og Eddie Howe, fordæmdu báðir stuðningsmanninn og sögðu ótækt að leikmenn og aðrir starfsmenn leiksins væru ekki öruggir.

Chelsea skoraði úr öllum sínum spyrnum í vítakeppninni en Newcastle klikkaði á tveimur spyrnum af fjórum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×