Fótbolti

Magni hættur eftir „ó­róa og klofning“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Magni Fannberg Magnússon klárar ekki samning sinn hjá Start.
Magni Fannberg Magnússon klárar ekki samning sinn hjá Start. ikstart.no

Magni Fannberg Magnússon er hættur sem íþróttastjóri hjá norska félaginu Start en hann og félagið komust að samkomulagi um starfslok.

Start staðfestir þetta á miðlum sínum en það má sjá fréttatilkynninguna hér.

Magni Fannberg tjáði sig um stöðu mála á samfélagmiðlum.

„Óróinn og klofningurinn sem einkennir nú IK Start gerir mér ómögulegt að halda áfram sem íþróttastjóri félagsins. Það er mitt mat að vera mín ýti undir ólguna í félaginu og bæti jafnvel við hana. Þess vegna er ég ekki góður kostur fyrir félagið í dag. Ég get ekki haldið svona áfram,“ skrifaði Magni Fannberg meðal annars á samfélagsmiðlum samkvæmt frétt hjá norska ríkisútvarpinu.

Magni Fannberg átti eitt ár eftir af samningi sínum en hættir strax. Hann kom til norska félagsins í febrúar 2022. Hann hafði áður unnið hjá sænska félaginu AIK og við akademíuna hjá norska félaginu Brann.

Start endaði í fimmta sæti í norsku b-deildinni en fékk aldrei að spila í úrslitakeppninni. Ástæðan voru slæmar vallaraðstæður þar sem völlurinn var frosinn og gestaliðið Bryne fékk því að halda áfram.

Félagið sagði seinna frá því að menn hefðu verið að reyna að spara pening með því að skrúfa fyrir heita vatnið sem átti að hita upp völlinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×