Comanche og fyrrverandi kærasta hans voru handtekin á dögunum, grunuð um að hafa átt þátt í dauða hinnar 23 ára Maryönu Rodgers. Lík hennar fannst fyrir utan Las Vegas.
Comanche hefur nú játað að hafa myrt Rodgers þann 6. desember. Rodgers og fyrrverandi kærasta hans, Sakari Harnden, voru báðar vændiskonur og höfðu átt í deilum um dýrt úr.
Samkvæmt játningu Comanche átti hann að þykjast kaupa vændisþjónustu af Rodgers. Hann kyrkti hana svo með HDMI-snúru og þau Harnden skildu lík hennar svo eftir í vegkanti.
Degi fyrir morðið hafði Comanche spilað með Stockton Kings í G-deildinni, þróunardeild NBA. Stockton Kings er systurfélag Sacramento Kings. Félagið rifti samningi Comanches eftir að hann var handtekinn.
Comanche, sem er 27 ára, lék einn leik með Portland Trail Blazers í NBA á síðasta tímabili.