Fótbolti

Ronaldo hefur auga­stað á 250 lands­leikjum

Siggeir Ævarsson skrifar
Cristiano Ronaldo, leikmaður portúgalska landsliðsins og Al-Nassr
Cristiano Ronaldo, leikmaður portúgalska landsliðsins og Al-Nassr Vísir/Getty

Cristano Ronaldo virðist hvergi nærri hættur að láta að sér kveða með landsliði Portúgal þrátt fyrir að verða 39 ára í febrúar á næsta ári. Hann ku hafa augastað á að rjúfa 250 leikja múrinn að sögn Roberto Martinez, landsliðsþjálfara Portúgal.

Ronaldo varð fyrstur allra til að leika yfir 200 landsleiki fyrr á árinu og er alls kominn með 205 leiki í sarpinn, níu leikjum fleiri en kúveitski framherjinn Bader Al-Mutawa sem lagði landsliðsskóna á hilluna 2022. Þess má til gamans geta að þeir Al-Mutawa og Ronaldo eru jafnaldrar.

Roberto Martinez greindi frá þessu í spjalli við Freddie Ljungberg á dögunum. Þegar Martinez tók við landsliðinu var Ronaldo nálægt því að rjúfa 200 leikja múrinn og Martinez spurði hann hvort 200 landsleikir væru sérstakt markmið í hans huga.

„Nei, en 250 landsleikir vekja áhuga minn.“

Til að ná þessum árangri þyrfti Ronaldo að spila með landsliðinu í það minnsta til ársins 2026 og sleppa bæði við meiðsli og bönn. Jafnframt þyrfti liðið að komast áfram upp úr riðlakeppni bæði á HM og EM, annars er ekki fræðilegur möguleiki á að hann nái 250 leikjum fyrr en árið 2027, þá 42 ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×