Enski boltinn

Arsenal setti ó­trú­legt en nei­kvætt met

Sindri Sverrisson skrifar
Leikmenn Arsenal fengu ítrekað að komast nálægt marki West Ham en náðu aldrei að koma boltanum í markið.
Leikmenn Arsenal fengu ítrekað að komast nálægt marki West Ham en náðu aldrei að koma boltanum í markið. EPA-EFE/TOLGA AKMEN

Arsenal-menn misstu af tækifæri til að endurheimta toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í gærkvöld þegar þeir töpuðu 2-0 á heimavelli gegn West Ham. Þeir sóttu þó vægast sagt mikið í leiknum.

Tölfræðiveitan Opta bendir á þá staðreynd að leikmenn Arsenal hafi náð að snerta boltann 77 sinnum í vítateig andstæðinganna, án þess að skora, og að það hafi aldrei áður gerst í sögu ensku úrvalsdeildarinnar en hún var stofnuð árið 1992.

„Við höfðum yfirburði í 100 mínútur. Við áttum stór augnablik, við vorum með galopna leikmenn í teignum. Ég held að leikmennirnir hafi lagt mikið á sig. Það er erfitt í búningsklefanum núna en við eigum annan leik eftir 72 klukkutíma. Þetta er fótbolti og við þurfum að bæta okkur á ákveðnum sviðum,“ sagði Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal eftir leik, svekktur yfir tapinu sem veldur því að Arsenal er tveimur stigum á eftir toppliði Liverpool.

„Við erum þar sem við erum, mér finnst við vera í mjög góðri stöðu. Mér fannst við ekki fá það sem við áttum skilið í kvöld,“ sagði Arteta en Arsenal átti 30 skot að marki West Ham á móti 6 hjá gestunum. Þá fór Arsenal illa með nokkur góð færi í leiknum.

Arteta og hans menn voru einnig svekktir með að fyrra mark West Ham skyldi fá að standa, en erfitt var að greina af sjónvarpsmyndum hvort að boltinn hefði farið út af vellinum í aðdraganda þess að Tomas Soucek skoraði.

„Þetta er eins og það er. Tæknin er ekki nægilega góð til að sjá nógu vel hvort boltinn er farinn út af,“ sagði Arteta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×