Enski boltinn

„Versti leikur okkar á leiktíðinni“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Arteta átti erfitt með sig á hliðarlínunni í dag.
Arteta átti erfitt með sig á hliðarlínunni í dag. Getty

Arsenal þurfti að þola annað tap sitt í röð í ensku úrvalsdeildinni er Fulham vann 2-1 sigur á liðinu á Craven Cottage í dag. Knattspyrnustjóri Arsenal segir leikinn hafa verið afar slakan af hálfu hans manna.

Arsenal komst yfir snemma leiks en ógnaði marki andstæðinganna lítið eftir það. Fulham var hættulegri aðilinn og tókst að jafna 1-1 fyrir hlé. Liðið komst þá yfir eftir tæplega stundarfjórðungsleik í síðari hálfleik og voru gestirnir í raun aldrei líklegir til að jafna þar sem skiptingar Mikels Arteta höfðu lítil áhrif á leikinn.

Arteta var afar ósáttur með spilamennskuna.

„Þetta var erfiður dagur og sorglegur dagur,“ sagði pirraður Arteta við breska ríkisútvarpið, BBC.

„Fyrir þremur dögum spiluðum við leik sem við töpuðum en áttum algjörlega að vinna, en í dag var versti leikur okkar á leiktíðinni. Hraðinn, ákveðni í sókninni, varnarlega vorum við verri, við gátum ekki stýrt leiknum og vorum í vandræðum,“

„Ef við spilum eins og við gerðum í hinum 19 leikjunum verðum við í nánd við toppinn í lok tímabils. Ef við spilum eins og í dag eigum við ekki séns. Það er mjög erfitt að kyngja þessu,“ segir Arteta.

Arsenal hefur aðeins fengið fjögur stig af síðustu 15 mögulegum í deildinni. Þrátt fyrir það hefði sigur í dag komið þeim á toppinn yfir áramót en í staðinn er liðið statt í fjórða sæti með 40 stig eftir 20 leiki, jafnt Manchester City að stigum en City er í þriðja og hefur leikið einum leik færra.

Liverpool er á toppnum með 42 stig eftir 19 leiki, jafnt Aston Villa að stigum sem hefur leikið 20 leiki eins og Arsenal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×