Enski boltinn

Kvartaði til lög­reglu vegna kynþáttaníðs fulls fótboltamanns

Valur Páll Eiríksson skrifar
No Room for Racism er verkefni ensku úrvalsdeildarinnar gegn kynþáttafordómum. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
No Room for Racism er verkefni ensku úrvalsdeildarinnar gegn kynþáttafordómum. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Getty

Starfsmaður í mótttökuþjónustu í húsnæði með lúxusíbúðum á Bretlandi kvartaði til lögreglu vegna meints kynþáttaníðs af hendi ónefnds fótboltamanns í ensku úrvalsdeildinni. Sá sem hann ber sökunum hafi verið drukkinn.

Starfsmaðurinn, sem er fimmtugur Englendingur af senegölskum og gambískum uppruna, segir að fótboltastjarnan hafi komið í húsnæðið snemma morguns þann 10. Desember, lyktandi af áfengi. Hann hafi krafist þess að fá afhentan lykil að íbúðinni sinni, eitthvað sem starfmaðurinn hafði ekki aðgang að.

Fótboltastjarnan hafi reiðst við þau viðbrögð og látið öllum illum látum.

„Hann reiddist mjög, og sagði mér að gefa honum fjárans lykilinn,“ segir starfsmaðurinn við breska fjölmiðla. Sá hafi sagt fótboltamanninum að bíða í örfáar mínútur þar sem samstarfsfélagi gæti aðstoðað með lykilinn. Fótboltamaðurinn hafi reiðst enn frekar, kallað starfsmanninn öllum illum nöfnum. Þegar blótsyrðin færðust yfir kynþáttafordóma, þar sem fótboltamaðurinn hreytti í hann N-orðinu, hafi starfsmaðurinn svarað fyrir sig.

„Þar dreg ég línuna. Mig hryllti við slíkri orðanotkun. Ég sagði honum að ég myndi ekki láta tala við mig með slíkum hætti,“ segir starfsmaðurinn.

Fótboltamaðurinn hafi þá spurt starfsmanninn hvort hann viti ekki hver hann er. Að hann myndi aldrei starfa í húsinu aftur og hafi þá aftur notað N-orðið.

Málið var tilkynnt til lögreglu sem er með það til skoðunar. Engar handtökur hafa átt sér stað.

Félag leikmannsins sem á við, sem ekki heldur er nefnt í breskum fjölmiðlum, vildi ekki tjá sig um mál sem enn væri til rannsóknar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×