Í frétt NBC 6 South kemur fram að slökkviliðsmenn væru að berjast við eldinn og að hvítur og svartur reykur sæist koma frá húsinu. Slökkviliðið hefði gert göt á þak hússins til að komast að eldinum.
Hill leikur sem útherji hjá Miami Dolphins og er af flestum talinn einn af betri leikmönnum deildarinnar. Hann var á æfingu hjá Dolphins-liðinu og var enginn í húsinu þegar eldurinn kom upp.
Hill keypti húsið árið 2022 fyrir 6,9 milljónir dollara. Húsið er engin smásmíði því þar er að finna átta baðherbergi, bíósal, körfuboltavöll, risastóra sundlaug og tvö gestahús.
Í frétt 7News kemur fram að búist sé við fleiri slökkviliðsmönnum á svæðið og að búið sé að uppfæra útkallið í annars stigs útkall. Búið er að koma upplýsingum um eldinn til Tyreek Hill og yfirgaf hann æfingu Dolphins í kjölfarið.