Fótbolti

Henry greinir frá glímu við þung­lyndi: „Ég grét nánast á hverjum degi“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Thierry Henry átti afar farsælan feril.
Thierry Henry átti afar farsælan feril. getty/Catherine Ivill

Thierry Henry, markahæsti leikmaður í sögu Arsenal, greindi frá glímu sinni við þunglyndi í hlaðvarpinu Diary of a CEO. Á meðan kórónuveirufaraldurinn stóð yfir grét hann nánast á hverjum einasta degi.

„Í gegnum ferilinn og síðan ég fæddist hef ég verið þunglyndur. Vissi ég það? Nei. Gerði ég eitthvað í það? Nei. En ég aðlagaðist,“ sagði Henry sem er núna þjálfari U-21 árs liðs Frakklands. Hann stýrði áður Monaco og Montreal Impact.

Henry var fastur í Montreal þegar kórónuveirufaraldurinn hófst og andlegri heilsu hans hrakaði þá.

„Ég var í einangrun í Montreal og það var erfitt að geta ekki séð börnin mín í ár. Ég grét nánast á hverjum degi. Tárin komu ein. Af hverju veit ég ekki en kannski höfðu þau verið lengi þarna,“ sagði Henry.

„Þú verður að setja annan fótinn fram fyrir hinn og labba áfram. Mér hefur verið sagt það síðan ég var ungur. Ég hætti aldrei að labba. Ef ég hefði gert það hefði ég kannski áttað mig á vandræðunum. Í covid hætti ég að labba. Ég gat það ekki og þá rennur upp fyrir þér ljós.“

Henry skoraði 228 mörk í 377 leikjum fyrir Arsenal. Hann varð tvívegis Englandsmeistari með liðinu. Þá varð framherjinn markheppni bæði heims- og Evrópumeistari með franska landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×