Innlent

Til­kynnt um hvítt duft fyrir utan heimili í borginni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla sinnti ýmsum verkefnum í gærkvöldi og nótt.
Lögregla sinnti ýmsum verkefnum í gærkvöldi og nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti nokkuð fjölbreyttum verkefnum í nótt og barst meðal annars tilkynning frá íbúa sem hafði fundið hvítt duft í smelluláspoka fyrir framan heimili sitt.

Fór lögregla á vettvang og sótti efnið, sem verður efnagreint.

Tilkynnt var um líkamsárás og þjófnað í póstnúmerinu 104 í tveimur aðskildum málum og þá barst tilkynning frá starfsmanni verslunar sem taldi viðskiptavin hafa stolið peningaveski sínu.

Lögregla stöðvaði einnig bifreið þar sem ökumaður freistaði þess að hlaupa undan lögreglumönnum. Hann náðist, var handtekinn og reyndist vera í ólöglegri dvöl hér á landi. Þá var tilkynnt um minniháttar umferðaróhapp tveggja bifreiða en ökumaður annarar þeirra reyndist án gildra ökuréttinda.

Annað umferðaróhapp átti sér stað þar sem tvær bifreiðar skullu seman og urðu ökumenn fyrir minniháttar meiðslum. Annar þeirra er grunaður um að hafa ekið á móti rauðu ljósi.

Lögregla var einnig köllu til vegna einstaklings sem var sagður hafa brotið rúðu í stigagangi í bræði. Var hann farinn af vettvangi þegar lögreglu bar að en lögregla telur sig vita hver var að verki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×