Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eldfjalla- og náttúruvárhópi Suðurlands. Þar segir að auki að vatnshæð í Gígjukvísl fari jafnframt hægt og rólega hækkandi. Vatnshæðarmælir Veðurstofunnar sýni að vatnshæð sé nú um meter hærri en hún var áður en fyrstu ummerki hlaups komu fram.
Óvissustigi var lýst yfir vegna jökulhlaups og aukinnar skjálftavirkni á fimmtudag. Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur sagði þann sama dag að ekki sé ljóst að það muni gjósa í Grímsvötnum, en þó séu nokkrar líkur á því. Þá sagði hann að ef gjósi í Grímsvötnum þá verði sprengigos.