Innlent

„Þetta gerir stöðuna auð­vitað mjög al­var­lega“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Kristín Jónsdóttir, sviðsstjóri náttúruvár á Veðurstofu Íslands. 
Kristín Jónsdóttir, sviðsstjóri náttúruvár á Veðurstofu Íslands.  Vísir/Vilhelm

Jarðskjálftavirkni hefur færst undir Grindavík og kvika því mögulega komin undir bæinn. Auknar líkur þykja á að eldgos hefjist inni í bænum og þá innan varnargarða.

Þetta segir Kristín Jónsdóttir sviðsstjóri náttúruvár hjá Veðurstofu Íslands í samtali við fréttastofu.

„Skjálftavirknin hefur færst nær og nær bænum til marks um það að spennan í jarðskorpunni er að aukast í þessa átt. Kvikan er því mjög líklega að færast nær Grindavík og er þá hugsanlega undir Grindavík akkúrat núna, sem þýðir að það eru auknar likur á eldgosi inni i Grindavík og fyrir innan varnargarða. Þetta gerir  stöðuna auðvitað mjög alvarlega,“ segir Kristín.

Svipað kvikumagn og 18. desember

Erfitt sé að meta hvort kvika sé að færa sig nær yfirborði. Virknin sé svo áköf að skjálftar verði á nokkurra sekúndna fresti og því sé eiginlega algjör ógjörningur að yfirfara skjálftana. Þeir skjálftar sem hafi verið yfirfarnir séu á tveggja til þriggja kílómetra dýpi, sem sé ekki mikið. 

„En í rauninni getur kvikan komið upp án þess að við sjáum mjög greinileg merki um að skjálftadýpi sé að minnka. Stundum sjáum við það en stundum ekki. Þannig að þetta er viðvörunin sem við erum að gefa út núna. Það er öflug hrina í gangi og við erum að sjá mjög mikla tognun á skorpunni, kvikugangurinn er að víkka til marks um það að kvika streymir hratt inn. Við vitum að magnið af kvikunni sem komið var inn í Svartsengi var mjög svipað og var komið 18. desember [þegar síðast gaus]. Þannig að það má segja að þetta sé að sumu leyti svipaður atburður en það sem er ólíkt núna er að kvikan hleypur þarna til suðurs.“

„Síðast gaus á mjög langri sprungu“

Eins og þetta lítur út núna, eru þá mestar líkur á að kvika komi upp innan Grindavíkur? 

„Sundhnúksgígaröðin heldur auðvitað áfram í gegnum Grindavík. Syðstu þekktu gígarnir sem voru þá virkir fyrir 2400 árum, þeir eru bara um 800 metrum fyrir norðan bæjarmörkin. Það virðist vera erfitt fyrir kvikuna að koma mikið sunnar en þetta er eitthvað sem við getum ekki útilokað,“ segir Kristín. Það sem skipti máli núna sé að yfirgefa svæðið.

„Það ætti ekki að koma neinum á óvart að það verði gos fyrir norðan varnargarðana. En það sem við erum að segja er í rauninni að það eru merki um að kvika sé að koma undir Grindavík sem þýðir að það gæti líka gosið þar. Og síðast gaus á mjög langri sprungu og þetta er að mörgu leyti svipaður atburður,“ segir Kristín.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×